Reglur Félagsins

Lög Íslendingafélagsins í Björgvin samþykkt á aðalfundi 26.apríl 1994, með breytingum samþykkt á aðalfundum 28 apríl 1999, 27 apríl 2002, og 25 apríl 2004.

§ 1. NAFN OG MARKMIÐ.

Félagið heitir „Íslendingafélagið í Björgvin“. Heimili þess og varnarþing er í Bergen. Markmið þess er að efla og viðhalda samskiptum félagsmanna og vinna að sameiginlegum hagsmunarmálum þeirra.

§ 2. FÉLAGAR.

Félagsrétt hafa allir Íslendingar og aðrir þeir sem áhuga hafa á Íslandi og íslenskum málefnum. Börn félagsmanna sem eru yngri en 20 ára eru sjálfkrafa félagsmenn í Íslendingafélaginu.

§ 3. STJÓRN.

Í stjórn félagsins sitja fimm til sjö manns og er stjórnin og meðstjórnendur. Stjórnin getur skipað nefndir sem annast undirbúning og /eða sér um skemmtanir og aðrar samkomur í nafni félagsins.

§ 4. AÐALFUNDUR.

Aðalfundur skal haldinn á tímabilinu 1. mars til 30. apríl ár hvert. Aðalfundur er löglegur sé til hans boðað með 30 daga fyrirvara. Fundarboð skal berast öllum félagsmönnum bréflega. Í fundarboði skal koma fram hvaða mál á að taka fyrir á aðalfundi. Tillögur um mál sem óskað er eftir að tekin verði fyrir á aðalfundi verða að hafa borist til stjórnarinnar 14 dögum fyrir aðalfund.

Atkvæðisrétt hafa skuldlausir félagar.

Verkefni aðalfundar eru

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Reikningar félagsins lagðir fram
  3. Ákvörðun ársgjalds
  4. Lagabreytingar
  5. Kjör stjórnar
  6. Kjör endurskoðanda
  7. Önnur mál

§ 5. SJÓÐIR OG REIKNINGAR.

Sjóðir félagsins skulu vera í vörslu gjaldkera. Starfsár og reikningar félagsins miðast við almanaksárið og skulu lagðir fram endurskoðaðir á aðalfundi. Allir reikningar og útborganir, stærri enn NOK 1.000,00 skulu lagðir fram á næsta stjórnarfundi.

§ 6. ÁKVÖRÐUN ÁRSGJALDS.

Ársgjald fyrir næsta starfsár skal fastsett á aðalfundi félagsins. Félagar sem skrá sig í félagið á starfsárinu skulu greiða hlutfall af félagsgjaldi sem samsvarar fjölda mánaða sem eftir eru á starfsárinu. Félagsmenn sem ekki greiða ársgjöld falla út af félagaskrá.

§ 7. LAGABREYTINGAR.

Lagabreytingar geta aðeins farið fram á aðalfundi og skulu hafa borist stjórninni fyrir janúarlok. Lagabreytingar skal senda út með fundarboði til aðalfundar.

Til að lagabreytingar taka gildi, þarf samþykki 2/3 atkvæðabærra félaga á aðalfundi.

§ 8. KOSNINGAR.

Formaður skal kjörinn sérstaklega og síðan aðrir stjórnarmenn sem skipta sjálfir með sér verkum. Kosningar skulu vera leynilegar og eingöngu skuldlausir félagar viðstaddir aðalfund geta tekið þátt í kjöri.

§ 9. STARFSEMI FÉLAGSINS.

Starfsemi félagsins skal miðast við að efla samskipti félagsmanna. Starfsemi getur m.a. verið fólgin í umsjón á þorrablóti, skipulagningu á jólaballi og öðrum samkomum sem hafa það markmið að auka tengsl félagsmanna.

Íslendingafélagið í Björgvin er óháð stjórnmálum og trúarbrögðum. Stjórn félagsins getur þó haft milligöngu um skipulagningu á guðþjónustu fyrir íslenska söfnuðinn í Noregi. Stjórn félagsins getur einnig haft milligöngu um skipulagningu funda með íslenskum stjórnmálamönnum, sem eru á ferð um Bergen eða nágrenni. Ofangreint er þó háð því að slíkar samkomur hafi ekki neikvæð áhrif á fjárhag félagsins eða skaði starfsemi þess að öðru leyti.

Skildu eftir svar